Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Þéttbýli

freydis-heba-7-2.jpg
Þéttbýli

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar tilútivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

 

Skagaströnd

Á Skagaströnd er ekki aðeins fögur og gróðursæl náttúran yfir og allt um kring og menningin sérstök, blómleg og lifandi - það er svo miklu meira.

Listamenn sinna störfum sínum í Nes-listamiðstöðinnu.

Spákonufellshöfði er vinsælt útivistarsvæði. Þar hafa gönguleiðir verið merktar og fræðsluskilti um fugla og gróður sett upp. Spákonufell er virðulegt fjall fyrir ofan bæinn og gönguleiðin upp er stikuð.

Á Skagaströnd er jafnframt góður golfvöllur, fallegt tjaldsvæði með glæsilegu þjónustuhúsi. Sundlaugin er lítil en notarleg og eftir góða gönguferð er yndælt að láta líða úr sér í heita pottinum eða leika sér með börnunum í lauginni.

Þórshöfn

Hjarta Þórshafnar slær í takt við sjávarföllin, þar hefur útgerð og fiskvinnsla verið aðalatvinnuvegurinn í gegnum tíðina. Því er einstaklega gaman að rölta niður að höfn og jafnvel kíkja á veitingahúsið Báran, sem meðal annars á fjölbreyttum matseðli býður upp á kúffisksúpu. Eða fara í sund í glæsilegri íþróttamiðstöð, þar sem upplýsingamiðstöðin er staðsett. Ekki má gleyma að Þórshöfn er anddyrið að ævintýraheimi Langaness. Þjónusta á Þórshöfn er mjög góð, þar er heilsugæsla, verslun, veitingastaður, íþróttahús, sundlaug, sparisjóður, bensínstöð, bílaverkstæði, gistihús o.fl. Einnig er þar tjaldsvæði með aðstöðu fyrir húsbíla. Samgöngur til Þórshafnar eru orðnar prýðilegar með nýjum vegi yfir Hófaskarð. Einnig er flogið til Þórshafnar alla virka daga.

Raufarhöfn

Raufarhöfn nyrst allra kauptúna á Íslandi er 250 manna sjávarþorp. Hvergi á Íslandi verður vornóttin bjartari né vetrardagurinn myrkari. Heimskautsbaugur er rétt við ströndina og á Raufarhöfn er heimskautsgerði í undirbúningi.

Á Raufarhöfn er gott tjaldstæði með topp aðstöðu svo sem sturtu og rafmagni fyrir húsbíla og hjólhýsi. Mjög góð leiktæki eru fyrir börn við grunnskólann og íþróttamiðstöð sem er við hliðina á tjaldstæðinu.

Á Raufarhöfn er öll grunnþjónusta heilsugæsla, apótek, matvöruverslun, banki, pósthús, olíuverslun, bifreiðaverkstæði, hótel, bar, gallerý og fl.

Frá Raufarhöfn er hægt að fara í siglingar norður fyrir heimskautsbaug, margt annað er hægt að gera sér til dundurs, kynna sér fjölbreytt fuglalíf, renna fyrir fiski við höfnina eða í einhverjum af fjölmörgum veiðiám og vötnum á Melrakkasléttu, fara í gönguferðir á Höfðann eða um Melrakkasléttu.

Grenivík

Kauptúnið Grenivík stendur undir fjallinu Kaldbak sem er 1173 m hátt. Skemmtilegar gönguleiðir eru upp á Kaldbak, en fyrir þá sem kjósa léttari leiðir er Þengilhöfði ákjósanlegri en það er 260 m hátt fjall suður af Grenivík. Fleiri fjöll í byggðarlaginu er ögrandi að klífa svo sem Blámannshatt og Laufáshnjúk.

Þegar minnst er á Grenivík koma Fjörðurnar og Látraströnd fljótt upp í hugann. Á Látraströnd og í Fjörðum var byggð áður fyrr og eru þessar gömlu byggðir paradís göngumannsins og sífellt fleiri leggja leið sína á þetta svæði til að kynnast fjölbreyttri og fallegri náttúru og sögu forfeðra okkar sem bíður við hvert fótmál.

Byggðarlagið vekur sífellt meiri áhuga ferðamanna og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hestaleiga er hjá Pólarhestum á Grýtubakka, húsdýragarður í Hléskógum, Fjörðungar sérhæfa sig í gönguferðum um Fjörður og Látraströnd og Kaldbaksferðir bjóða upp á snjótroðaraferðir upp á Kaldbak. Að auki er veiði í Fnjóská og Fjarðará í Hvalvatnsfirði.

Matvöruverslunin Jónsabúð er á Grenivík en þar er líka kaffi og veitingasala. Í Gamla prestshúsinu í Laufási er einnig veitingasala. Við grunnskólann er góð sundlaug og tjaldstæði. Í Hléskógum er bændagisting og tjaldstæði.

Það er vel þess virði að taka sér tíma til að staldra við utan hringvegarins og heimsækja byggðarlagið og njóta náttúrufegurðar og persónulegrar gestrisni heimamanna.

Hvammstangi

Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra. Verslunarsaga staðarins nær yfir rúm 100 ár og er Verslunarminjasafnið gott dæmi um hvernig verslað var í krambúðum hér áðurfyrr.

Góð höfn er á Hvammstanga og þaðan er gerður út sjóstanga- og selaskoðunarbátur. Hvammstangi er tilvalinn áfangastaður ferðamanna og er þar mjög góð sundlaug, gott tjaldsvæði í skjólgóðum hvammi með þægilegu þjónustuhúsi og tengingum fyrir tjald- og húsvagna.

Jafnframt er á Hvammstanga gistihús, verslun, veitingastaður, bankaþjónusta, heilsugæsla, bensínstöð, bílaverkstæði og önnur nauðsynleg þjónusta.

Selasetur Íslands veitir upplýsingar um seli og Vatnsnes, auk þess er þar almenn upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Reykjahlíð

Reykjahlíð er byggðakjarni við Mývatn, sem er eitt helsta ferðamannasvæði norðurlands. Þar er í boði ýmis þjónusta svo sem verslun, banki, pósthús, heilsugæslustöð, skóli og sundlaug. Í Mývatnssveit er margs konar gistiaðstaða ásamt góðum veitinga- og kaffihúsum.

Fjölskrúðugt fuglalíf er á svæðinu og full ástæða er til að staldra við í nýja Fuglasafninu í Neslöndum. Skammt austur af Reykjahlíð eru Jarðböðin við Mývatn þar sem ferðalangar njóta þess að slaka á í heitu jarðvatninu. Í Mývatnssveit eru margar merktar gönguleiðir.

Grímsey

Grímsey er græn, grösug og einstaklega gjöful eyja. Frægust er Grímsey trúlega í hugum ferðamanna fyrir heimskautsbauginn og kemur fólk gjarnan langa leið, til þess eins að stíga norður fyrir baug.

Eyjan er 5,3 km2 að stærð. Hæst er hún 105 metrar og fjarlægð frá "Íslandi" er 41 km.

Mannlífið er kröftugt og bjart og eru Grímseyingar mikilir gleðimenn sem vinna og skemmta sér af alhug. Góð sundlaug var vígð árið 1989. Eyjabúar versla í versluninni Búðinni, sem er einkarekin og er þar gott vöruúrval. Einnig eru tvö gistiheimili í Eyjunni og annað er opið allan ársins hring.

Ferjan Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar 3 daga í viku allt árið. Reglubundið flug með Flugfélagi Íslands er einnig þangað, 3 sinnum í viku yfir veturinn en sjö daga á sumrin.

Húsavík

Húsavík er elsta byggða ból á Íslandi. Húsavík er stærsti bærinn í Þingeyjarsýslu og er þjónustukjarni fyrir nærliggjandi þéttbýliskjarna. Menningarmiðstöð Þingeyinga, Safnahúsið á Húsavík, hýsir hluta af Byggðasafni Suður-Þingeyinga, sjóminjasafn, náttúrugripasafn, héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og myndlistarsafn.

Á Húsavík er einnig að finna Hvalasafn. Menningarlíf á svæðinu er blómlegt en leikfélagið er ákaflega öflugt og í fremstu röð áhugaleikfélaga á landinu. Tónlistarlíf er fjölbreytt og á svæðinu er reglulegt tónleikahald, auk þess sem ýmsir kórar og hljómsveitir eru starfandi.

Á Húsavík eru nokkur hvalaskoðunarfyrirtæki og er það mikil upplifun að fara í hvalaskoðun á Skjálfanda, eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Á Húsavík er einnig að finna fallegan skrúðgarð, tjaldsvæði, sundlaug, golfvöll og skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi.

Sauðárkrókur

Sauðárkrókur stendur við botn Skagafjarðar að suðvestan. Á Sauðárkróki er fjölbreytt þjónusta; sýningar, söfn, skemmtistaðir, verslanir, veitingar, gisting, sjúkrahús, verkstæði, íþróttavöllur, strandblakvöllur, sundlaug o.fl.

Á Aðalgötunni er verslun Haraldar Júlíussonar, hún hefur starfað óslitið frá árinu 1919. Einnig er Minjahúsið við Aðalgötuna en þar eru m.a. til sýnis fjögur lítil verkstæði í anda liðinna tíma, einnig er ísbjörn til sýnis í Minjahúsinu og þar er staðsett upplýsingamiðstöð.

Brekkurnar fyrir ofan bæinn kallast Nafir og eru fornir sjávarkambar, á Nöfunum er útsýnisskífa þar sem hægt er að njóta þess að horfa yfir fjörðinn. Einnig er golfvöllur upp á Nöfum.

Sauðárkrókur er einn öflugasti byggðarkjarni landsbyggðarinnar þar sem saman fer öflug útgerð, úrvinnsla afurða af stóru landbúnaðarsvæði og þjónusta sem jafnast á við það besta sem býðst á landsbyggðinni.

Austan við Sauðárkrók er Borgarsandur tæplega fjögurra kílómetra löng svört sandfjara. Litlu sunnar við Áshildarholtsvatn er fjölskrúðugt fuglalíf en þar má finna upplýsingaskilti um fugla. Mikið fuglalíf er við ósa Héraðsvatna og á Miklavatni og Áshildarholtsvatni rétt sunnan Sauðárkróks.

Blönduós

Í gegnum Blönduós rennur ein helsta jökulá landsins , Blanda og í henni er að finna náttúruperlu bæjarins, Hrútey. Brú er útí eyjuna og um hana eru göngustígar. Með Blöndu, að ósnum, er sérlega rómantísk gönguleið með útsýni yfir hafið.

Auk náttúruskoðunar er ýmis afþreying í boði fyrir ferðamenn; golf, sundlaug, stang- og skotveiði, hestaleiga og hið einstaka safn bæjarins, Heimilisiðnaðarsafnið.

Fjölbreytt gistiþjónusta er fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, sumarhús með heitum pottum og sauna auk úrvals tjaldsvæðis. Veitingar fást á grillstöðum, kaffi- og veitingahúsum.

Bakkafjörður

Á Bakkafirði snýst lífið að mestu um fiskinn í sjónum og réttinn til að hafa lífsviðurværi sitt af veiðum á honum! Bakkafjörður býður upp á ótalmarga útivistarmöguleika, gönguferðir, fuglaskoðun, fjöruferðir og fleira. Gaman er að skoða gömlu höfnina og lífið í kringum þá nýju sem er skammt innan við þorpið. Skemmtileg gönguleið liggur út að Steintúni og áfram út að vitanum á Digranesi. Gönguslóð er einnig með Viðvíkurbjörgunum í Viðvík og þaðan yfir að Álftavatni og til Bakkafjarðar. Kyrrð og friður, fuglalíf og náttúrufegurð einkenna svæðið. Spriklandi fiskur er í ám og vötnum sem hægt er að fá að veiða. Sundlaug er í Selárdal í 30 km fjarlægð frá Bakkafirði, laugin er í eigu Vopnfirðinga og er magnað útsýni til fjalla þaðan og á laxveiðitímanum er hægt að fylgjast með laxveiðimönnum glíma við laxinn í Selá sem rennur rétt neðan við laugina í Selárdal.

Kópasker

Kópasker er sjávarþorp við austanverðan Axarfjörð. Höfuðatvinnuvegir eru þjónusta við nágrannasveitir og sjávarútvegur. Vert er að heimsækja Byggðasafn Norður-Þingeyinga að Snartarstöðum, svo og Jarðskjálftasetrið sem veitir innsýn í upplifun jarðskjálftans stóra 1976.

Á Kópaskeri er verslun, verkstæði, heilsugæslustöð, banki, tjaldstæði og gistiheimili. Norðan þorpsins er Melrakkaslétta, með sínu fjölbreytta fuglalífi og þar er líka nyrsti oddi Íslands, Hraunhafnartangi.

Laugar

Laugar í Reykjadal er þéttbýliskjarni sem hefur byggst upp á jarðhitasvæði. Þar er skólasetrið Laugar í Reykjadal, þar sem bæði eru grunnskóli og framhaldsskóli.

Á Laugum er miðstöð stjórnsýslu í Þingeyjarsveit og ýmis önnur þjónusta í boði, svo sem banki, verslun og veitingastaður. Á sumrin er þar starfrækt hótel, og auk þess bjóða fleiri aðilar upp á gistingu. Á Laugum er einnig sundlaug og frábær aðstaða til íþróttaiðkunar.

Svalbarðseyri

Svalbarðseyri er þorp á Svalbarðsströnd við austanverðan Eyjafjörð. Áður var hér verslunarmiðstöð, en þjónustustarfsemi er nú höfuðatvinnuvegurinn. Íbúarnir starfa að mestu í nágrannabyggðarlögum.

Hrafnagil

Hrafnagil var til forna höfuðból og kirkjustaður, en er nú lítill byggðakjarni með þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Í Hrafnagili er líka Jólagarðurinn og sælkeraverslunin Bakgarðuinn í Eyjafirði.

Hjalteyri

Hjalteyri er smáþorp á vesturströnd Eyjafjarðar. Þar var ein af aðalstöðvum síldveiða snemma á 20. öldinni. Í gömlu síldarverksmiðjunni fer nú fram mikil uppbygging þar eru haldnar listsýningar, þar er köfunarþjónusta, sútun, hákarlaverkun auk þess sem hópur áhugamanna um gamla bíla hefur haslað sér völl á Hjalteyri.

Hauganes

Hauganes er hluti af Árskógsströnd og segja má að Hauganes liggi við hliðin á Árskógssandi og er syðsti þéttbýliskjarni Dalvíkurbyggðar.

Á Hauganesi búa um 140 manns og snýst lífið þar líkt og á Árskógssandi öðru fremur um fiskveiðar og fiskvinnslu. Á Hauganesi er hægt að njóta bæði sveitasælunnar og nálægð við aðra þéttbýliskjarna en um 20 mínútur tekur að aka til Akureyrar og rétt um 10 mínútur að aka til Dalvíkur þar sem alla helstu þjónustu er að fá.

Árskógssandur

Árskógssandur er þéttbýliskjarni sem stendur niður við sjó og tengir saman land og eyju en skipið Sævar siglir milli Árskógssandar og Hríseyjar.

Árskógssandur er í um það bil 10 mínútna akstursfjarlægð frá Dalvík og skamma stund er verið að fara inn á Hauganes.

Á Árskógssandi er fjölþætt þjónusta í boði fyrir íbúa sveitarfélagsins. Nálægð við náttúruna er mikil en það er þroskandi fyrir börn að alast upp við um leið og þau læra að bera virðingu fyrir henni.

Á Árskógsströnd er nóg af afþreyingu í boði, þar er bruggsmiðjan Kaldi, hægt að fara í hvalaskoðun, paint ball og laser tag auk þess sem fyrirtæki á svæðinu bjóða uppá sekemmtilegar dagsferðir um svæðið.

Hrísey

Náttúruperlan Hrísey liggur um miðbik Eyjafjarðar. Þar er lítið sjávarþorp sem býður upp á ýmislegt sem ferðafólki kemur til góða, t.d.sundlaug, lítið gistiheimili, veitingahús, tjaldsvæði, kaffihús og verslun.

Gönguleiðir liggja frá þorpinu víðs vegar um eyjuna sem þekkt er fyrir fjölbreytt fuglalíf.

Skemmtileg dagskrá fyrir ferðafólk gæti t.d. verið fólgin í einhverju af því sem hér segir: Skoðunarferð á dráttarvél um eyna, með heimsókn í hákarlasafnið sem hefur að geyma ríkulegan fróðleik um hákarlaútgerð fyrri tíma og annað sem tengist sögu byggðarlagsins.

Til að komast til Hríseyjar, er stefnan tekin á Dalvík og beygt við vegamótin að Árskógssandi, áður en til Dalvíkur er komið. Hríseyjarferjan heldur uppi áætlunarferðum frá Árskógssandi og tekur siglingin út í eyju um 15 mínútur.

Ólafsfjörður

Fyrir ferðamenn og útivistarfólk er margt skemmtilegt að skoða og gera á Ólafsfirði.

Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta, þeytast um á snjósleða eða dorga í Ólafsfjarðarvatni.

Á sumrin eru það fjöllin, vatnið og svört sandfjaran sem heilla. Í stórbrotnu landslagi Ólafsfjarðar má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró.

Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi. Á Ólafsfirði er boðið upp á sjóstöng og auk þess er hægt að veiða á stöng í Ólafsfjarðará og Ólafsfjarðarvatni. Svo má ekki gleyma því að hægt er að veiða á bryggju bæjarins. Á Ólafsfirði er 9 holu golfvöllur, sundlaug og glæsilegt náttúrugripasafn með fjölda uppstoppaðra fugla.

Siglufjörður

Fyrir ferðamenn og útivistarfólk er margt skemmtilegt að skoða og gera á Siglufirði.

Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta eða þeytast um á snjósleða.

Á sumrin eru það fjöllin, vatnið og svört sandfjaran sem heilla. Í stórbrotnu landslagi Siglufjarðar má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró.

Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi. Á Siglufirði er boðið upp á sjóstöng og auk þess er hægt að veiða á stöng í Hólsá. Ekki gleyma því að hægt er að veiða á bryggjum bæjarins.

Miðnætursiglingar og ferðir yfir heimskautsbaug eru einnig í boði. Möguleiki er að skipuleggja sérstakar ferðir fyrir þá sem þess óska, svo sem göngu- og siglingaferð þar sem gengið yrði út í Héðinsfjörð og siglt heim. Á Siglufirði er 9 holu golfvöllur og sundlaug.

Þar er Síldarminjasafnið, stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og í Evrópu allri. Í þremur ólíkum húsum er hægt að kynna sér síldveiðar og vinnslu á "silfri hafsins". Síldarminjasafnið hlaut Evrópuverðlaun safna, Michletti verðlaunin, árið 2004. Á Siglufirði er einnig Þjóðlagasetrið.

Hofsós

Hofsós er lítið kauptún við austanverðan Skagafjörð. Fyrrum aðalverslunarstaður héraðsins og einn af elstu verslunarstöðum landsins sem enn stendur.

Á Hofsósi er gamalt bjálkahús, Pakkhúsið, vörugeymsla frá tímum einokunar. Þá er þar einnig í nýuppgerðu gömlu húsi annað safn sem er vel þess virði að skoða- Vesturfarasetrið sem segir frá flutningi hluta þjóðarinnar til Vesturheims.

Veitingastofan Sólvík býður uppá veitingar í þægilegu umhverfi, tjaldsvæði er við grunnskólann og gistiheimili. Ný og glæsileg sundlaug var tekin í notkun á Hofsósi 27.mars 2010. Nýja sundlaugin og umhverfi hennar er einkar glæsilegt. Lauginni var valinn staður niður á sjávarbakka, sunnarlega í þorpinu, ofan við svonefnda Staðarbjargarvík. Laugin er þannig frágengin að þegar synt er frá suðri til norðurs rennur vatnsflötur laugarinnar saman við hafflötinn neðan hennar með beina stefnu á Drangey.

Á Jónsmessu er haldin Jónsmessuhátíð á Hofsósi

Hólar

Hólar eru einn sögufrægasti staður Íslands og biskupssetur um aldir. Kirkja hefur staðið á Hólum frá 11. öld, en núverandi kirkja var reist 1763. Hún er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu og er elsta steinkirkja á Íslandi.

Háskólinn á Hólum hefur stækkað ört á síðustu árum og hefur fjöldi nemendagarða verið byggður. Íbúar Hóla eru yfir tvö hundruð talsins að vetri til. Skólinn sérhæfir sig í ferðamálafræðum, hrossarækt og reiðmennsku, auk fiskeldis og fiskalíffræði.

Fornleifauppgröftur hefur farið fram á Hólum síðustu ár og hafa yfir 40 þúsund munir fundist. Úrval forngripa er til sýnis í gamla skólahúsinu. Um skóginn hlykkjast spennandi göngustígar sem leiða mann inn í undraheima lifandi náttúru þessa forna sögustaðar.

Á Hólahátíð, sem er jafnan um miðjan ágúst eru margskonar viðburðir á vegum kirkjunnar s.s. Pílagrímagöngur, helgihald og aðrir menningarviðburðir.

Laufskálarétt í Hjaltadal er ein vinsælasta stóðrétt landsins en þangað mæta árlega allt að þrjú þúsund gestir og er af mörgum talin drottning stóðréttanna.

Varmahlíð

Varmahlíð er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna við þjóðveg nr. 1; byggðakjarni með fjölbreytt framboð þjónustu. Þar eru m.a. söluskáli, bensínstöð, matvöruverslun og veitingaþjónusta.

Við hlið verslunarmiðstöðvar KS er Upplýsingamiðstöð ferðamanna. Þar kynnir handverksfélagið Alþýðulist skagfirskt handverk. Í Varmahlíð er gott íþróttahús, barnvæn sundlaug og sparkvöllur.

Gistimöguleikar í Varmahlíð og nágrenni eru fjölbreyttir en hægt að fá gistingu í orlofshúsum, bændagistingu, tjaldsvæði og á hóteli.

Menningarhúsið Miðgarður er staðsett í Varmahlíð, þar sem boðið er upp á ýmsar skemmtanir árið um kring. Á góðviðrisdegi er gaman að ganga um í skógræktinni á Reykjarhólnum, á göngustígum sem liggja m.a. upp að útsýnisskífu efst á hólnum, þaðan sem útsýni er einstakt yfir miðhéraðið.

Laugarbakki

Þorpið Laugarbakki er austanmegin Miðfjarðarár, í Húnaþingi vestra, rétt við hringveginn. Fyrsta húsið á Laugarbakka var byggt 1933. Árið 1970 var reistur stór heimavistarskóli í þorpinu, Hótel Laugarbakki er nýtt hótel sem er opið allt árið sem bíður upp á nútíma þægindi og veislusal fyrir allt að 400 manns.

Á Laugarbakka er verslun, sundlaug (sem breytt hefur verið í notalega heita potta) og félagsheimili, sem að sumarlagi er vinsæll vettvangur fyrir fjölskyldusamkomur. Frá Laugarbakka til Hvammstanga eru aðeins 7 km.

Mývatn

Reykjahlíð er byggðakjarni við Mývatn, sem er eitt helsta ferðamannasvæði norðurlands. Þar er í boði ýmis þjónusta svo sem verslun, banki, pósthús, heilsugæslustöð, skóli og sundlaug. Í Mývatnssveit er margs konar gistiaðstaða ásamt góðum veitinga- og kaffihúsum.

Fjölskrúðugt fuglalíf er á svæðinu og full ástæða er til að staldra við í nýja Fuglasafninu í Neslöndum. Skammt austur af Reykjahlíð eru Jarðböðin við Mývatn þar sem ferðalangar njóta þess að slaka á í heitu jarðvatninu. Í Mývatnssveit eru margar merktar gönguleiðir.

Dalvík

Dalvíkurbyggð - Náttúruperla á Tröllaskaganum.

Fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar frá fyrstu hendi er Dalvíkurbyggð tilvalinn áfangastaður en sveitarfélagið liggur við náttúruparadísina Tröllaskagann auk þess að hafa frábært aðgengi að sjó.

Samgöngur eru góðar, bæði innan sveitarfélagsins sem og við aðra þéttbýliskjarna, sumar og vetur, og aðeins tekur 35 mín. að keyra til Akureyrar auk þess sem reglulegar áætlunarferðir eru frá Akureyri.

Í boði eru fjölmargar gönguleiðir, styttri og lengri. Af lengri gönguleiðum má nefna gömlu þjóðleiðina yfir Heljardalsheiði milli Svarfaðardals og Hóla í Hjaltadal og einnig liggja þrjár gamlar þjóðleiðir yfir til Ólafsfjarðar, Reykjaheiði, Grímubrekkur og Drangar, sem gaman er að ganga.

Í Dalvíkurbyggð má einnig finna glæsilega sundlaug, byggðasafn, frábært skíðasvæði, 9 holu golfvöll, sjóstangveiði, hestaferðir og margt margt fleira.

Akureyri

Akureyri iðar af mannlífi allan ársins hring. Í bænum búa um 20.000 manns og er hann sá langfjölmennasti utan höfuðborgarsvæðisins, miðstöð athafnalífs og þjónustu fyrir allt Norðurland.

Akureyri er menningar- og skólabær sem byggir á traustum grunni. Þar starfa tvö af stærri sjávarútvegsfyrirtæki landsins og ferðaþjónusta skipar sífellt hærri sess.

Frá Akureyri er stutt í margar helstu náttúruperlur landsins og bærinn sjálfur er vinsæll áningastaður um lengri eða skemmri tíma.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir fjölmarga hluti sem mælt er með að gestir skoði þegar þeir dvelja á Akureyri:

 • Lystigarðurinn - u.þ.b. 400 íslenskar plöntur auk rúmlega 7500 erlendra tegunda
 • Listasafnið og Listagilið
 • Sundlaug Akureyrar
 • Húni II - eikarbátur frá 1963 sem er staðsettur við Torfunesbryggju
 • Veitingahús sem bjóða upp á mat úr héraði
 • Kjarnaskógur
 • Innbærinn - söfn, kirkja og byggingar
 • Jaðarsvöllur - nyrsti 18 holu golfvöllur í heimi Glerárgil
 • Hrísey - perla Eyjafjarðar
 • Akureyrarvaka - uppskeruhátíð Listasumars sem haldin er í lok ágúst ár hvert
 • Bjór frá Víking og Kalda - brugghús í héraði
 • Brynjuís - í uppáhaldi heimamanna
 • Akureyrarkirkja
 • Hlíðarfjall

Norðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Norðurlandi eru fjölmargir áhugaverðir bæir, stórir og smáir, þar sem mannlíf og atvinnulíf er fjölbreytt. Hver bær hefur sín sérkenni en öllum er sameiginlegt að taka vel á móti gestum. Fjölbreytt gisting, góðir veitingastaðir, blómstrandi menning og möguleikar til útivistar og afþreyingar eru alls staðar fyrir hendi. 

Skoðunarferðir um bæina eru því bæði skemmtilegar og fræðandi.

Skoða meira

Map Akureyri Hrafnagil Grímsey Raufarhöfn Kópasker Þórshöfn Bakkafjörður Húsavík Mývatn Laugar Svalbarðseyri Grenivík Hjalteyri Hauganes Árskógssandur Dalvík Hrísey Ólafsfjörður Siglufjörður Hofsós Hólar Varmahlíð Sauðárkrókur Skagaströnd Blöndós Hvammstangi Laugarbakki Borðeyri