Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðasýningar og vinnustofur haustsins

Starfsfólk MN var á ferð og flugi í allt haust, á ferðasýningum og vinnustofum erlendis. Þar kynnum við áfangastaðinn Norðurland, segjum frá því hvað norðlensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða og svörum spurningum sem koma upp. Fundir á slíkum viðburðum eru afar þýðingarmiklir og hafa skilað góðum árangri í gegnum tíðina.

Starfsfólk MN var á ferð og flugi í allt haust, á ferðasýningum og vinnustofum erlendis. Þar kynnum við áfangastaðinn Norðurland, segjum frá því hvað norðlensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða og svörum spurningum sem koma upp. Fundir á slíkum viðburðum eru afar þýðingarmiklir og hafa skilað góðum árangri í gegnum tíðina.

Vinnustofa í Bandaríkjunum

Í byrjun september tók Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN þátt í vinnustofum á vegum Íslandsstofu sem fram fóru í Raleigh, Denver og Minneapolis í Bandaríkjunum. Þar var MN eini fulltrúinn utan höfuðborgarsvæðis og Suðurlands. Mikill áhugi var á því að fá upplýsingar um Norðurland, ferðamannaleiðirnar og skíðin komu sterk inn.

Winter Event í Hollandi

Um miðjan september fór Hjalti Páll, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N, á Winter Event í Hollandi ásamt fulltrúum frá þremur ferðaþjónustufyrirtækjum á Norðurlandi. Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel heldur þennan viðburð árlega, en hún hefur staðið fyrir leiguflugi til Norðurlands síðan 2019. Viðburðurinn var mjög vel heppnaður og á annað þúsund manns mættu til að kynna sér ferðir Voigt Travel. Norðurland fékk mikla athygli og góð viðbrögð gesta, sem er í takti við þá ánægju sem ferðalangar á vegum Voigt Travel hafa lýst eftir heimsóknir hingað. Það verður því vonandi áframhaldandi aukningu á heimsóknum Hollendinga til Norðurlands á næstu misserum. Flugklasinn hefur átt fulltrúa á Winter Event frá 2019, sem er hluti af samstarfi við Voigt Travel.

 


Vestnorden á Grænlandi

Seinnihluta september var Vestnorden haldin á Grænlandi, en þangað fóru Arnheiður og Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá MN. Níu norðlensk fyrirtæki voru á sýningunni, en seljendur voru um 100 talsins og kaupendur rúmlega 150. Fundirnir voru góðir, mikil eftirspurn var eftir Norðurlandi, spenna fyrir auknum möguleikum í flugi og greinilegt að þörf er á meira framboði af gistingu, bílum af öllum stærðum og afþreyingu.

IFTM Top Resa

Á svipuðum tíma fór Hjalti Páll til Frakklands á IFTM Top Resa, stærstu ferðasýninguna þar í landi.Sýningin er haldin árlega í París og er eingöngu svokölluð “business to business” sýning, sem þýðir að hana sækja eingöngu fulltrúar frá ferðaskrifstofum eða öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Þátttaka MN var í samstarfi við Íslandsstofu, sem var með sameiginlegan bás fyrir íslensk fyrirtæki á sýningunni. Viðbrögðin voru góð og greinilega mikill áhugi í Frakklandi á ferðalögum til Íslands.

Vinnustofa á Spáni

Katrín Harðardóttir, verkefnastjóri hjá MN sótti vinnustofu á Spáni í samvinnu með Íslandsstofu og Visit Norway, í október.
Markaðsstofan var eini fulltrúi ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Farið var í heimsóknir til þriggja borga, Valencia, Madrid og Barcelona. Þar kynnti Katrín Norðurland var fyrir spænskum ferðaskrifstofum, þar sem mikill áhugi var á Demantshringnum og þeim einstöku baðstöðum sem hér er að finna, svo eitthvað sé nefnt.
Ísland er vinsæll áfangastaður, sérstaklega yfir sumartímann en svona vinnustofur opna vonandi augu Spánverja fyrir þeim möguleikum sem svæðið býður uppá yfir vetrartímann líka.

Nordics í Bandaríkjunum

Í lok október var Halldór Óli á ferðalagi um Bandaríkin, þar sem vinnustofur voru haldnar í þremur borgum; New York, Seattle og Los Angeles. Vinnustofurnar eru undir nafninu Nordics og eru samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Færeyja og Grænlands.
Hugmyndafræðin á bakvið Nordics er meðal annars að geta sótt kaupendur á breiðum grunni svo að sem flest markaðssvæði í BNA geti tekið þátt í allavega einum viðburði.
Alls voru 15 fundir bókaðir í hverri borg og Halldór nýtti tækifæri á milli funda til þess að ná samtali við erlendar ferðaskrifstofur. Það er greinlegur munur á þekkingu bandarískra ferðaskrifstofa og margar voru að selja ferðir til Íslands nú þegar. Þó nokkrar skrifstofur hófu að selja Íslandsferðir í kringum heimsfaraldur þar sem landið var eina landið í Evrópu sem var opið og tilbúið að taka á móti fólki.
Lengri dvalartímar voru mikið ræddir og víðerni Norðurlands þóttu áhugaverð ásamt þeirri staðreynd að framboð þjónustu hér með því besta sem gerist samanborið við aðra norðlæga áfangastaði í Evrópu

 

 

World Travel Market

Á World Travel Market í nóvember var Ísland með fulltrúa frá 26 fyrirtækjum, auk Markaðsstofu Norðurlands og Höfuðborgarstofu. Gaman var að sjá Ísland koma inn aftur af krafti en hin Norðurlöndin voru ekki á staðnum. Mikið var rætt um vöruþróun, sjálfbærni og aðgengi. Niceair var á staðnum og kynnti áform um Bretlandsflug auk nýrra áfangastaða og vakti það mikla athygli.

Ísland vakti athygli í gegnum heimsfaraldur Covid-19, þar sem landið var stundum eitt af fáum sem var opið fyrir ferðamönnum og því bættu ferðaskrifstofur landinun við í sitt vöruframboð. Sú athygli skilaði sér greinilega á WTM þar sem ferðaskrifstofur komu á Íslandsbásinn til að kynna sér hvað landið hefur upp á að bjóða. Þar kom Norðurland sterkt inn, enda er framboð þjónustu hér með því besta sem gerist samanborið við aðra norðlæga áfangastaði í Evrópu.


Vinnustofur í Brussel og Amsterdam

Hjalti Páll tók þátt í vinnustofum í Amsterdam og Brussel í síðustu viku. Íslandsstofa skipulagði vinnustofurnar í samstarfi við Visit Faroe Islands, Visit Greenland, Visit Finland og Visit Estonia, ásamt almannatengslastofum í Hollandi og Belgíu.
Hjalti fundaði með fulltrúum frá rúmlega 30 ferðaskrifstofum í Hollandi og Belgíu sem selja ferðir til Íslands.
Viðtökurnar voru góðar og mikill áhugi á því sem Norðurland hefur upp á að bjóða.