Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðaþjónusta er auðlind okkar allra

Við sem störfum í ferðaþjónustunni þekkjum vel hversu öflug atvinnugreinin er, hversu miklu hún skilar til samfélagsins, hvernig hún stuðlar að aukinni þekkingu á náttúrunni og bættu aðgengi að henni. Við vitum hversu stóran þátt ferðaþjónustan á í því að atvinnulífið á Íslandi vex og dafnar.

Við sem störfum í ferðaþjónustunni þekkjum vel hversu öflug atvinnugreinin er, hversu miklu hún skilar til samfélagsins, hvernig hún stuðlar að aukinni þekkingu á náttúrunni og bættu aðgengi að henni. Við vitum hversu stóran þátt ferðaþjónustan á í því að atvinnulífið á Íslandi vex og dafnar. Við þekkjum hvernig ferðaþjónustan skapar Íslandi gott orðspor og hvernig sífellt fleiri líta til Íslands þegar kemur að því að ferðast á öruggan stað þar sem óspillt náttúran spilar lykilhlutverk. Síðust ár höfum við fylgst með því hvernig sífellt fleiri svæði geta litið á ferðaþjónustuna sem heilsárs atvinnugrein sem aftur verður til þess að fjölmargir brottfluttir íbúar koma aftur til baka í sína heimabyggð og þá með mikla reynslu og þekkingu í farteskinu.

Umræðan of oft um vandamálin

Þetta er aðeins örlítil mynd af því hversu jákvæð áhrif ferðaþjónustan hefur á Ísland, hversu miklu hún skilar til samfélagsins og íbúa. Þegar atvinnugrein þróast og vex eins hratt og ferðaþjónustan á Íslandi hefur gert er óhjákvæmilegt að við finnum fyrir vaxtarverkjum. Ýmis mál hafa komið upp sem varða innviði, gæðamál, náttúruvernd, fræðslu, upplýsingar og skipulag. Þetta eru allt áskoranir sem við þurfum öll að taka þátt í að ræða og leysa. Umræðan síðustu misseri hefur hinsvegar of oft snúist um vandamálin þannig að aftur og aftur sé hamrað á slæmum sögum og neikvæðum dæmum.

Ferðaþjónusta bætir og eflir samfélagið

Þessu viljum við snúa við og koma fram með jákvæðar og uppbyggilegar sögur frá ferðaþjónustunni. Þannig getum við fengið skýrar upplýsingar beint frá fólkinu sem starfar í ferðaþjónustunni um allt land. Við getum með því sýnt Íslendingum sem og erlendum gestum hversu öflug, fjölbreytt og ábyrg ferðaþjónustan er. Við getum dregið fram hversu mörg störf eru í raun í ferðaþjónustu, hversu fjölbreytt störfin eru, hvernig ferðaþjónustufyrirtækin taka virkan þátt í samfélaginu og auka tekjur annarra atvinnugreina. Við getum dregið fram að á öllu landinu séu einstakar náttúruperlur sem draga að sér gesti og vekja athygli um allan heim. Að fólk í ferðaþjónustu beri mikla virðingu fyrir sínu samfélagi og þeirri náttúru sem unnið er með auk þess sem ferðaþjónustan skapi líf, gleði, fjölbreytni og mikla möguleika á uppbyggingu svæða.

Nýtt verkefni

Markaðsstofa Norðurlands fer nú af stað með verkefni sem hefur fengið heitið #OKKARAUÐLIND. Við höfum tekið upp viðtöl við ferðaþjónustuaðila vítt og breitt um Norðurland, úr ýmsum tegundum ferðaþjónustu, öllum stærðum fyrirtækja og tölum bæði við ný fyrirtæki og gömul úr ferðaþjónustunni. Við spyrjum einfaldlega hvers vegna eru menn í ferðaþjónustu, hvert er aðdráttaraflið á hverju svæði, hvaða áhrif hefur ferðaþjónustan á lífið, samfélagið, náttúruna og efnahaginn. Hverjar eru helstu áskoranir og hvernig sjá menn ferðaþjónustuna þróast áfram. Myndbönd með viðtölunum verða  birt á Facebook síðum Markaðsstofunnar í vetur með reglulegu millibili.

Við vonum að þetta verkefni komi því á framfæri að hér á Norðurlandi sem og á landinu öllu erum við með öfluga, fjölbreytta og góða ferðaþjónustu sem við hvert og eitt okkar höfum mikinn ávinning af að styðja við, hvetja áfram og byggja upp. Kröftug ferðaþjónusta er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga.