Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Frá framkvæmdastjóra vegna heimsfaraldurs

Við stöndum nú frammi fyrir mjög erfiðum tíma í ferðaþjónustunni og þurfum að standa þétt saman til þess að halda þeirri starfsemi gangandi sem hægt er, auk þess að vera tilbúin til að bregðast hratt við þegar ástandið sem nú er gengur yfir.

„Við stöndum nú frammi fyrir mjög erfiðum tíma í ferðaþjónustunni og þurfum að standa þétt saman til þess að halda þeirri starfsemi gangandi sem hægt er, auk þess að vera tilbúin til að bregðast hratt við þegar ástandið sem nú er gengur yfir. Mig langar að hvetja samstarfsaðila til þess að vera í góðu sambandi við okkur á Markaðsstofu Norðurlands um hver staðan er hjá ykkur og í ykkar nærumhverfi og til hvaða aðgerða þið teljið að hægt sé að grípa.

Við höfum farið yfir starfsemi okkar með það í huga að halda þeim verkefnum gangandi sem hægt er og halda þannig áfram að byggja undir ímynd Norðurlands. Í því felst að sinna markaðssetningu af meiri krafti svo við tryggjum að Norðurland verði ofarlega í huga ferðamanna þegar aftur verður hægt að skipuleggja ferðalög. Við ætlum að vera tilbúin til að fara af stað um leið og færi gefst og gera okkar til þess að við náum skjótum bata fyrir ferðaþjónustuna á þessu svæði.

Nú eru í undirbúningi tvö verkefni sem fjármögnuð verða af stjórnvöldum og er ætlað að minnka neikvæð áhrif af ferðabanninu. Annars vegar er það markaðsherferð á erlendum mörkuðum og hins vegar sumarherferð á innanlandsmarkaði. MN kemur að undirbúningi og framkvæmd þessa verkefna en þau eru leidd af Íslandsstofu fyrir erlenda markaðinn og Ferðamálastofu fyrir innlenda markaðinn. Upphæðir verkefnanna eru ekki komnar í ljós en við munum fá nánari upplýsingar um innanlandsherferðina innan nokkurra daga og koma þeim til ykkar. Í millitíðinni hvet ég alla til að skoða hjá sér möguleikana á að þjónusta Íslendinga á ferðalagi í sumar, hvaða vörur henta helst, hvernig birtingarmynd þeirra er á ykkar miðlum og hvernig aðgengi er að bókunarmöguleikum. Við viljum gjarnan fá að heyra ykkar skoðun varðandi þetta og áherslur í væntanlegri herferð.

Eins og hjá öðrum fyrirtækjum er starfsemi MN með breyttum hætti þessar vikur og er hluti starfsmanna að vinna heiman að frá sér. Netföng og símanúmer finnið þið hér https://www.northiceland.is/is/markadsstofan/um-mn/starfsmenn

Við höfum tekið ákvörðun um að boða ekki staðarfundi í mars og apríl heldur færum okkur yfir í fjarfundi þar sem hægt er eða frestum viðburðum. Upplýsingar um einstök verkefni verða send út eins og áður en ef þið viljið kíkja yfir verkefnalista ársins þá er hann hér þar sem eru birtar fundargerðir stjórnarfunda https://www.northiceland.is/static/files/PDF/Fundargerdir/stjornarfundur-mn-22012020.pdf

Markaðsstofa Norðurlands ásamt öðrum Markaðsstofum landshlutanna hefur komið á framfæri upplýsingum um mögulegar aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustunni og mun halda því áfram. Þar erum við að horfa til annars vegar aðgerða til þess að styðja við rekstur fyrirtækja næstu vikurnar og hins vegar lengri tíma aðgerða til að byggja upp sterka ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ég hvet ykkur því til að vera í góðu sambandi við okkur varðandi allar tillögur sem þið hafið eða ef þið viljið koma á framfæri einstökum málum. Stjórn MN á fund með ráðherra ferðamála á morgun til þess að ræða ferðaþjónustuna á Norðurlandi.

Samtök ferðaþjónustunnar vinna með stjórnvöldum að hagsmunum félagsmanna sinna og halda úti upplýsingavef varðandi aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustufyrirtækjum https://www.saf.is/covid-19/

Það er ljóst að ferðaþjónustan á Norðurlandi er að horfa fram á amk 2-3 mánuði af mjög skertum tekjum og að nú er mikil óvissa um hversu mikil áhrifin verða inn í sumarið. Erfitt er að setja fram tölur um hversu mikill samdrátturinn verður en við erum að taka saman tölur um ferðamenn á Norðurlandi til þess að fá yfirsýn yfir möguleg áhrif á okkar svæði næstu mánuði. Til þess að fá einhverja mynd má gera ráð fyrir að gistinætur á Norðurlandi í mars og apríl samtals á síðasta ári hafi verið um 85.000 og í maí tæplega 90.000.

Það er mikilvægt að við stöndum saman öll sem eitt að því að komast í gegnum þessa stöðu sem er komin upp. Við þurfum að horfa til þess að koma rekstrinum í gegnum næstu vikur og ekki síður til þess að skipuleggja viðbrögðin og undirbúa okkur til lengri tíma.

Sem fyrr segi hvetjum við á Markaðsstofu Norðurlands ykkur til að hafa samband við okkur ef við getum aðstoðað ykkur eða miðlað upplýsingum."

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.