Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Friður og ró við ysta haf

Mirjam Blekkenhorst og Sverrir Möller hafa rekið ferðaþjónustu að Ytra Lóni á Langanesi síðan 1998. Þau stunda einnig sauðfjár- og hrossarækt, skógrækt og margvíslegan hlunnindabúskap á jörðinni, en allt styður þetta vel hvað við annað.

Mirjam Blekkenhorst og Sverrir Möller hafa rekið ferðaþjónustu að Ytra Lóni á Langanesi síðan 1998. Þau stunda einnig sauðfjár- og hrossarækt, skógrækt og margvíslegan hlunnindabúskap á jörðinni, en allt styður þetta vel hvað við annað.

Í dag bjóða Mirjam og Sverrir upp á íbúðagistingu, aðstöðu fyrir fundi og námskeið, auk veitingaþjónustu. Einnig bjóða þau upp á bæði göngu- og bílferðir um Langanes og víðar. Viðskiptavinir þeirra eru bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar.

„Okkar sérstaða er fólgin í okkar rólega umhverfi. Við getum boðið ferðamönnum upp á frið og ró, en einnig afar sterka tengingu við náttúruna og dýrin á bænum.“

Samspil margvíslegrar starfsemi

Ferðaþjónustan og landbúnaðurinn sem stundaður er á Ytra Lóni spilar mjög vel saman. Mirjam og Sverrir framleiða stóran hluta þeirra matvæla sem þau bjóða gestum, auk þess sem þau nýta það sem náttúran gefur, svo sem silung, rekavið og önnur hlunnindi. Þannig hafa þau sjálfbærni að leiðarljósi í sinni starfsemi.

Á Ytra Lóni býðst gestum ótal einstakar náttúrutengdar upplifanir. Gestum er boðið með að vitja um æðarvarpið, að taka þátt í að planta skógi og í boði er leiðsögn um Langanes þar sem sagt er frá náttúrufari og menningu svæðisins. Mirjam og Sverrir nefna sérstaklega að gestir þeirra séu mjög forvitnir um starfið á bænum og hvernig þau geri hlutina.

Smelltu hér til að lesa meira

Samstaða um sjálfbæra ferðaþjónustu

Markaðsstofa Norðurlands hefur síðan 2022 unnið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að hvetja til aukinnar vitundar um sjálfbærni í ferðaþjónustu. Í kjölfar greiningarvinnu sem unnin var með aðkomu Kontiki ráðgjafafyrirtækisins (sjá samantekt hér) var ákveðið að leggja höfuðáherslu á samfélags- og hagræna þætti í áframhaldandi umræðu um viðfangsefnið. Dregnar voru út tvær megináherslur:

1) Aukinn hagur heimamanna (benefits local communities)

2) Auknar heilsárstekjur (increases local creation, all year round).

Mörg ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi hafa tileinkað sér gildi sjálfbærar þróunar. Þau eiga það sameiginlegt að hafa innleitt áherslur og/eða verkefni sem eru til þess fallin að efla sjálfbærni, m.a. með bættan hag nærsamfélagsins að leiðarljósi. MN hefur nú tekið saman frásagnir af starfi nokkurra þessara fyrirtækja. Tilgangur þessa er m.a. að auka vitund forsvarsaðila annarra ferðaþjónustufyrirtækja um sjálfbærni og hvetja þá til góðra verka.

Efnið sem birtist hér er tekið saman með stuðningi úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra.