Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hvað er framundan hjá okkur?

Framundan eru breyttir tímar. Ferðamynstur mun breytast, nýir markaðir opnast og vísbendingar eru um að áherslur ferðamanna verði aðrar þegar heimurinn opnar að nýju fyrir ferðalög

Framundan eru breyttir tímar. Ferðamynstur mun breytast, nýir markaðir opnast og vísbendingar eru um að áherslur ferðamanna verði aðrar þegar heimurinn opnar að nýju fyrir ferðalög. Norðurland er í lykilstöðu þegar kemur að því að bjóða ferðamönnum víðerni, fámenni og tengingu við náttúruna. Þessar áherslur sem komu fram í könnun á upplifun ferðamanna á Norðurlandi sl vor eru í góðum takti við þær áherslur sem eru að birtast í gögnum um ferðalanga framtíðarinnar. Þegar tækifærið gefst er stór hópur ferðamanna tilbúinn að fara hratt af stað og því mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að vera vel undirbúin að koma til baka af krafti.

Næstu mánuði er mikilvægt að viðhalda markaðstengslum og vitund á markaði auk þess að undirbúa aðgerðir þegar komið er að því að bókanir fara aftur af stað. Með því að viðhalda markaðssetningunni má auka líkur á því að Norðurland verði ofarlega í hugum fólks og búa til löngun til ferðalaga til okkar, sem skilar sér síðan í auðveldara sölustarfi þegar kemur að bókunum. Gera má ráð fyrir að mikil samkeppni skapist á markaði þegar sala hefst og góður undirbúningur er því mikilvægur. Uppbygging á vöru og þjónustu, nú á meðan hlé er á ferðalögum, skiptir miklu máli.

Hjá MN leggjum við nú áherslu á ímyndarmarkaðssetningu fyrir erlenda markaði. Þar erum við að birta myndir og myndbönd, sögur af svæðinu og koma fram með nýjar tilbúnar vörur eins og Demantshringinn. Eftirfylgnin felst síðan í beinu samtali við ferðaskrifstofur og aðstoð til þeirra við að selja svæðið með útgáfu söluhandbóka. Áherslur okkar eru á fleiri markaði nú en áður og miðast við væntanlega ferðahegðun. Við leggjum einnig áherslu á að framleiða efni og gera aðgengilegt fyrir samstarfsfyrirtæki okkar til að auðvelda ykkur markaðssetninguna og halda niðri kostnaði. Á næstu vikum verður bakendi Upplifdu.is gerður aðgengilegur og þar með gefst kostur á að búa til myndbönd af náttúruperlum og áhugverðum stöðum á einfaldan hátt. Einnig er verið að ljúka við að taka saman öfluga myndabanka fyrir Norðurland þar sem úrval mynda verður stóraukið. Enska útgáfa Upplifdu.is verður sett í loftið í haust en þróunarvinnu lýkur á næstu vikum.  

Á íslenska markaðnum erum við einnig að vinna með Upplifdu.is auk þess sem ný vefsíða fer í loftið með aðgengilegri kortalausn til að auðvelda skipulagningu ferða og bæta sýnileika fyrirtækja. Áhersla verður á íslenska markaðinn í birtingum í samstarfi við fyrirtækin og stendur yfir skipulagning herferða vetrarins. Norðurland var nú í sumar með flestar gistinætur innlendra aðila af öllum svæðum og hefur svæðið til margra ára verið vinsælasta svæði Íslendinga til ferðalaga innanlands. Það gefur því góða von fyrir veturinn og ætlum við að vera mjög sýnileg á innlenda markaðnum með þær áherslur að hvetja til vetrarferðalaga og kynna vel fjölbreytileika svæðisins, auðvitað með allar sóttvarnarráðstafanir í huga.  

Um 300 fyrirtæki eru í samstarfi við MN og hvetjum við ykkur til að vera í góðu sambandi við okkur nú í vetur þrátt fyrir að aðstæðurnar bjóði ekki upp á stóra fundi eins og er. Mikil bjartsýni kom fram hjá stórum hluta fyrirtækjanna í könnun sem unnin var nú fyrir stuttu. Má gera ráð fyrir því að árstíðarsveiflan sem við höfum búið við geri það að verkum að áhrifin af Covid-19 séu ekki jafn mikil og nær höfuðborgarsvæðinu auk þess sem mikil aukning á innanlandsmarkaði hefur jákvæð áhrif á Norðurlandi. Hins vegar er alveg ljóst að fjölmörg fyrirtæki berjast nú í bökkum í mjög erfiðum rekstrarlegum aðstæðum og aðeins um helmingur þeirra hefur getað nýtt sér úrræði stjórnvalda til stuðnings fyrirtækjum. Við hvetjum alla til að kynna sér vel hvaða leiðir eru í boði og vera í sambandi við okkur ef engin úrræði virka svo við getum komið þeim upplýsingum áleiðis til stjórnvalda en samkvæmt könnuninni eru það helst minnstu fyrirtækin sem hafa ekki nýtt úrræðin. Það er gríðarlega mikilvægt að við sem svæði komum eins sterk út úr þessum aðstæðum og hægt er þannig að samkeppnisstaðan haldist sterk og við getum tekið fljótt á móti enn fleiri ferðamönnum en áður. Núna gefst tækifæri til að endurskipuleggja þjónustuna og vöruframboðið auk þess að fá fram þá innviðauppbyggingu sem þarf til þess að Norðurland verði tilbúið allt árið.

Það er ánægjulegt að sjá kraftinn sem er í ferðaþjónustunni þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður og mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að við stöndum saman að stórum og öflugum verkefnum, baráttu fyrir hagsmuni svæðisins og ekki síst að við vinnum þétt saman í nýsköpun í ferðaþjónustunni á svæðinu og komum hratt til baka inn á markaðinn sem öflugur áfangastaður með skýra sýn og spennandi vöruframboð.

Bestu kveðjur, Arnheiður Jóhannsdóttir
framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands