Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Skóflustunga að stækkun flugstöðvar

Myndir: Auðunn Níelsson fyrir Isavia
Myndir: Auðunn Níelsson fyrir Isavia

Fyrsta skóflustunga að stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli var framkvæmd í gær, þriðjudaginn 15.júní. Sigurður Ingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hlaut þann heiður. Í ræðu hans var einnig staðfest að nýtt flughlað sé fjármagnað ásamt því að útboð fari fram í lok júní.

Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022. Þá verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verða þá 2700 fermetrar.

Hjalti Páll Þórarinsson verkefnastjóri hélt erindi við athöfnina þar sem hann sagði meðal annars:

„Þetta er langþráð framkvæmd og í raun grundvöllur fyrir áframhaldandi uppbyggingu samgangna og eflingu millilandaflugs um Norðurland.
Með því að byggja þessa innviði til þess að geta raunverulega opnað nýja fluggátt á Íslandi, er verið að stíga gríðarlega stórt framfaraskref. Og það skemmtilegasta er, að þetta er líka svo skynsamleg framkvæmd. Aukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll gerir nefnilega svo margt:

  • Gjörbreytir möguleikum ferðaþjónustu til að vaxa og dafna – ekki bara á Norðurlandi eða Austurlandi, heldur um allt land.
  • Minnkar árstíðasveiflu og stuðlar að fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustunni
  • Skapar skilyrði fyrir að starfrækja öfluga vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi – allt er til staðar en það vantar tenginguna við erlenda markaði.
  • Skapar skilyrði, og er í raun forsenda að mati erlendra sérfræðinga, fyrir þróun og velgengni íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar.
  • Er þjóðhagslega hagkvæmt, skv. útreikningum hagfræðinga.
  • Þá er eftir að telja atriði eins og bætt lífsgæði fyrir íbúa og eflingu byggðar og atvinnulífs, sem allt kemur með bættum samgöngum. „

Verkefnið er kærkomin viðbót sem barist hefur verið fyrir í langan tíma. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp innviði og stunda öfluga markaðssetningu á áfangastaðnum og alþjóðaflugvellinum hér fyrir norðan.