Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

„Stór tækifæri í vetrarferðaþjónustu“

„Beint millilandaflug skilar ferðamanninum betur til okkar. Við fáum mjög lítinn hluta norður af þeim ferðamönnum sem koma suður, alltof lítinn hluta. En hérna fáum við ferðamenn bara beint inn á svæðið og því mun meiri líkur á að þeir nýti sér þá þjónustu sem hér er í boði,“ segir Arinbjörn Þórarinsson, framkvæmdastjóri veitingahússins Greifans í nýjasta viðtali Okkar auðlindar.

„Beint millilandaflug skilar ferðamanninum betur til okkar. Við fáum mjög lítinn hluta norður af þeim ferðamönnum sem koma suður, alltof lítinn hluta. En hérna fáum við ferðamenn bara beint inn á svæðið og því mun meiri líkur á að þeir nýti sér þá þjónustu sem hér er í boði,“ segir Arinbjörn Þórarinsson, framkvæmdastjóri veitingahússins Greifans í nýjasta viðtali Okkar auðlindar.

 

Hann segist finna vel fyrir áhrifum af beinu millilandaflugi þó stærsti viðskiptahópurinn séu Íslendingar.

„Áhrifin eru fyrst og fremst að við erum að sjá fleiri ferðamenn utan tímabils, og við verðum náttúrulega mest vör við það, þegar að það er rólegast að gera. Þá skipta þessir ferðamenn alveg gríðarlega miklu máli. Allt sem er umfram og á þeim tíma sem er kannski minna að gera en vanalega, það eru gríðarlega mikil verðmæti í því.“

Arinbjörn, eða Ari eins og hann er kallaður, er sannkallaður reynslubolti í veitingageiranum og segir að þolinmæði og úthald skipti miklu máli í ferðaþjónustu. Tækifærin séu til staðar yfir veturinn.

„Það eru að sjálfsögðu hægt að efla ferðaþjónustu, það tekur tíma og það kostar peninga. En í ferðaþjónustu er lykilatriði að hafa úthald, og þetta byggist upp á mörgum árum - tugum ára. Úthald er númer eitt, tvö og þrjú. Ég tel að það séu stór tækifæri í vetrarferðaþjónustu, að upplifa landið á allt annan hátt en yfir sumarið. Þá er Norðurlandið kjörstaður til að upplifa alvöru vetur og upplifa landið öðruvísi en yfir sumarið,“ segir Ari.

Þó Akureyri sé nú þegar gríðarlega mikilvægur fyrir innlenda ferðaþjónustu, sé nægt pláss fyrir fleiri ferðamenn.

„Akureyri er gríðarlegur ferðaþjónustubær. Ég hef oft sagt að þetta sé hálfgerður svampur, hér geta verið fleiri þúsund ferðamenn án þess að þú finnir beint fyrir því. Hverja einustu helgi hér yfir vetrartímann eru fleiri þúsund gesta, sem að gista út um allt. Hér er mikið af orlofsíbúðum sem eru nánast fullar hverja einustu helgi, og önnur gisting sem getur tekið á móti þessum ferðamönnum. Geta okkar hér er gríðarlega mikil, án þess að þú farir að finna fyrir, eins og menn segja, neikvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar. Það er hægt að taka á móti mjög mörgum áður en þú ferð að finna fyrir því,“ segir Ari.

Greifinn hefur undirbúið sig fyrir komu erlendra ferðamanna sem koma til Norðurlands með beinu millilandaflugi, og þá skiptir máli að vera með upplýsingar á réttum tungumálum.

„Við höfum undirbúið okkur þannig að markaðsefni og annað, við höfum þurft að fara yfir það og beina því til þeirra sem eru að koma. Núna erum við að taka á móti, bæði Bretum og það er flug frá Hollandi og svo Austurríki [Sviss], þannig að við höfum aðeins verið að skoða hvernig við getum komið efni til þeirra og kynnt okkur betur. Eins með samfélagsmiðla og annað, við þurfum að huga að því að þeir eru ekki góðir í íslensku. Við þurfum að koma þessu á framfæri líka á ensku eða því tungumáli sem hentar best,“ segir Ari.

Íþróttalíf á Akureyri hefur sérstaklega notið góðs af samstarfi við Greifann, sem Ari segir að komi báðum aðilum mjög til góða. Samfélagið skipti fyrirtækið miklu máli.

„Við höfum verið mjög dugleg við að styðja við til dæmis íþróttafélögin hérna í bænum. Það er bæði okkur mikils virði að íbúum líði vel, krakkar og fjölskyldur geti nýtt sér þá aðstöðu og þær æfingar og íþróttir sem eru í boði. Sem býr þá til skemmtilegra líf í bænum og þá er betra að búa, gott að búa á Akureyri. Þar af leiðandi höldum við fólki í bænum sem eru okkar viðskiptavinir. Síðan en ekki síst, þá eru náttúrulega þessi íþróttafélög gríðarlega öflug í því að búa til viðburði. Því fylgir fólk í bæinn, Íslendingar sem eru fyrst og fremst okkar viðskiptavinir í dag. Íþróttafélögin eru mjög dugleg og koma með mikið af fólki í bæinn sem við svo þjónustum.“