Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Demantshringurinn á 5 dögum

Demantshringurinn er stórkostlegur 250km langur hringvegur á Norðurlandi eystra en þar er að finna magnaðar náttúruperlur og fjölbreytta afþreyingu.

Dagur 1:

Keyrt er frá Akureyri snemma dags og stoppað við hinn fræga Goðafoss sem stendur rétt við þjóðveginn. Þar er góður göngustígur sem liggur upp að fossinum og tilvalið er að gefa sér góðan tíma og njóta náttúrunnar.  

Keyrt áfram til Húsavíkur sem er elsti bær landsins. Á Húsavík er margt hægt að skoða og gera, meðal annars fara á Hvalasafnið, í hvalaskoðun, siglingu útí Flatey, kayak, hestaferðir, taka göngu uppá Húsavíkurfjall, fara í golf og borða góðan mat.

Eftir afþreyingu dagsins er tilvalið að fara í Sjóböðin og slaka á með stórkostlegu útsýni.  

Á Húsavík eru bæði hótel og gistiheimili.  

Dagur 2:

Gott er að byrja daginn snemma, borða góðan morgunmat og taka stefnuna á Ásbyrgi. Á leiðinni er keyrt fyrir Tjörnesið sem er einstaklega áhugaverður staðir fyrir þá sem hafa áhuga á jarðfræði. Mikil jarðlög er að finna niðri við sjó á vestanverðu Tjörnesi og hafa þau verið nefnd Tjörneslög. Elsti hluti þeirra er syðstur og er um 4 milljón ára gamall en yngstu setlögin á Tjörnesi eru um 1,2 milljón ára gömul. 

Á austanverðu Tjörnesinu er Hringsbjarg, þaðan er stórbrotið útsýni yfir fjallgarð Öxafjarðar og heillandi svarta strönd sem er í nágrenninu og auðvelt að komast að. Við Hringsbjarg er stór útsýnipallur, gott bílastæði og upplýsingaskilti. Þetta er hinn fullkomni staður til að stoppa og teygja úr sér, anda að sér fersku sjávarloftinu og njóta útsýnisins og kyrrðarinnar.
Í bjarginu er mikið fuglalíf sem gaman er að skoða.

Þegar komið er í Ásbyrgi er gaman að stoppa aðeins í Gljúfrastofu og kynna sér svæðið betur, þetta mikla náttúruundur Íslands, og fá upplýsingar um þær fjölmörgu gönguleiðir sem eru á svæðinu. Njótið dagsins í stórkostlegu umhverfi þar sem kraftur náttúrunnar kemur svo sterklega í ljós.

Í nágrenni við Ásbyrgi er hótel og nokkur hugguleg gistiheimili.  

Dagur 3:

Sveitasælan er svo afslappandi og orkugefandi. Að vakna við fuglasöng og vera umkringdur fallegu landslagi er alveg einstakt. Eftir góðan morgunmat og jafnvel smá göngu í morgunsárið er fínt að leggja af stað og taka stefnuna að Dettifossi, aflmesta fossi Evrópu.

Á leiðinni eru fjölmargir áhugaverðir staðir sem gaman er að skoða. Má þar nefna stuðlabergsklettana Hljóðakletta og Hólmatungur. Að ganga um þetta svæði og meðfram Jökulsá á Fjöllum, er með því fallegra sem finnst á landinu.      
Svo er það Dettifoss sjálfur, þar sem maður upplifir svo sannarlega hversu smár maður er.

Áfram er haldið og niður í Mývatnssveit, Hverir blasa við með sinni litadýrð og brennisteinslykt. Skemmtilegt er að labba um svæðið og virða fyrir sér leir- og gufuhveri sem umlykja svæðið. Ef klukkan er orðin of margt og jafnvel farið að dimma er tilvalið að koma hingað aftur á morgun og taka þá stopp við sprengigíginn Stóra-Víti í leiðinni.

Fjölbreytt gisting er í boði í Mývatnssveit; bændagisting, gistiheimili og hótel.

Ef tími gefst til er dásamlegt að koma við í Jarðböðunum og slaka á áður en haldið er á háttinn.

Dagur 4:

Í fallegu veðri er gott að rölta út með morgunmatinn og njóta hans í fallegu umhverfi. Helstu náttúruperlur Mývatnssveitar bíða og ef fólk hefur áhuga þá er hægt að leigja hjól og hjóla um svæðið eða jafnvel ferðast um það á hestum. Dimmuborgir, Hverfjall (auðveld ganga þangað upp), Grjótagjá, Höfði og Skútustaðagígar. Fuglasafnið og fjölbreytt fuglalífið við vatnið. Fyrir þá ævintýragjörnu er einnig hægt að kaupa sér ferð í  hellaskoðun, Lofthellir er sannkallað ævintýraland.
Það er af nægu að taka.
Mælum að sjálfsögðu með að fara aftur í Jarðböðin, það er bara svo fullkomið að liggja í heitu vatni og láta þreytuna líða úr líkamanum. Útsýnið skemmir heldur ekki fyrir!

Mælt er með að borða mat beint úr sveitinni, ferskari verður hann ekki.  

Aftur gist í Mývatnssveit.

Dagur 5:

Nú er Demantshringferðinni lokið að sinni. Að sjálfsögðu er hægt að dvelja lengur á svæðinu, fara aftur til baka eða jafnvel enn austar, allt eftir því hvað hentar fólki. Frá Mývatnssveit er líka auðvelt að komast uppá hálendið og ferð uppí Öskju er ógleymanleg.

Hér má svo sjá Júlla leiðsögumann ferðast Demantshringinn.