Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fréttaskot í júní

Bókin okkar er komin út og sumarkortin sömuleiðis. Undirbúningur fyrir Vestnorden er í fullum gangi og salan hjá Super Break fyrir veturinn gengur vel. Þetta og meira í fréttaskoti júnímánaðar.

Nú er bókin North Iceland Official Tourist Guide komin út, en búið er að dreifa henni á allar opinberar upplýsingamiðstöðvar á Norðurlandi. Samstarfsfyrirtæki okkar geta farið þangað og fengið bækur til að dreifa hjá sér.

Það sama gildir um sumarkortin okkar, en í ár er sú nýjung að prentað er á báðar hliðarnar. Aftan á kortinu eru nú upplýsingar um helstu náttúruperlurnar á Norðurlandi. Ef skortur eru á kortum og bókum þá skuluð þið endilega láta okkur vita og við reynum að koma efninu til ykkar eins fljótt og auðið er. Bæði bækur og kort má nálgast á stafrænu formi hjá okkur, hér er hægt að sjá bókina og hér er hægt að sjá kortið.

FAM ferðir og Vestnorden

Nú í lok maí skipulagði Markaðsstofan svokallaða FAM ferð, þar sem farið er með fólk frá ferðaskrifstofum í heimsóknir til ferðaþjónustufyrirtækja og Norðurlandið kynnt. Þetta var fjórða ferðin, og jafnframt sú síðasta í þessari törn, en nú var farið um austanverðan Eyjafjörð og til Húsavíkur. Norðurlandi var þannig skipt upp í fjögur svæði og farið var um hvert svæði í tveggja daga ferðum, en törnin hefur staðið yfir síðustu misseri. Óhætt er að segja að ferðirnar hafi tekist vel og vel var tekið á móti okkur allsstaðar. Takk kærlega fyrir það!

Vestnorden ferðaráðstefnan verður haldin í október á Akureyri og starfsmenn Markaðsstofunnar hafa að undanförnu unnið að undirbúningi hennar. Í tengslum við ráðstefnuna verður boðið upp á ferðir fyrir sýningargesti þar sem farið er í um klukkustundar aksturfjarlægð frá Akureyri, en einnig er boðið upp á ferðir fyrir sýninguna þar sem farið verður um austasta og vestasta hluta Norðurlands. Nánari upplýsingar um Vestnorden eru á vestnorden.com.

ILS búnaður og Super Break

Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem fram kemur að brýnt sé að setja upp ILS búnað auk þess að stækka þurfi flughlaðið. Annað verkefnið útiloki ekki hitt og það hafi komið skýrt fram í samræðum við fulltrúa erlendra flugfélaga sem hafa sýnt því áhuga að fljúga til Akureyrar, að það skipti flugfélögin miklu máli að þessi búnaður sé til staðar. Lesa má alla tilkynninguna hér.

Chris Hagan, sem hefur haft yfirumsjón með ferðum Super Break til Akureyrar, tilkynnti það á vorráðstefnu Markaðsstofunnar í maí, að sala á ferðum gengi vel. Þegar er búið að selja hátt í fjórðung þeirra sæta sem í boði verða, og það áður en formleg markaðssetning hefst hjá ferðaskrifstofunni. Það eru afar ánægjulegar fréttir.