Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Komdu norður á gönguskíði!

Gönguskíði hafa notið sífellt vaxandi vinsælda síðustu ár og í dag má segja að þetta sé ein vinsælasta vetraríþrótt Íslendinga. Þau henta öllum og á Norðurlandi má finna gönguskíðaspor og brautir fyrir öll getustig

Gönguskíði hafa notið sífellt vaxandi vinsælda síðustu ár og í dag má segja að þetta sé ein vinsælasta vetraríþrótt Íslendinga. Þau henta öllum og á Norðurlandi má finna gönguskíðaspor og brautir fyrir öll getustig. Þær geta verið flatar og þægilegar fyrir byrjendur, yfir í lengri og meira krefjandi leiðir. Leiðirnar eru gjarnan opnaðar mun fyrr en brekkurnar á skíðasvæðunum því ekki þarf eins mikinn snjó til að troða spor og í brekkunum, sem er vafalaust mikill kostur. Á fallegum vetrardegi er fátt betra en nokkrir kílómetrar á gönguskíðum.

Á Norðurlandi eru gönguskíðaspor troðin mjög víða. Nánast öll skíðasvæðin bjóða upp á spor, í Tindastóli, í Skarðsdal við Siglufjörð, á Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík og síðast en ekki síst í Mývatnssveit. Þá er víða hægt að finna gönguskíðaspor, til dæmis í Kjarnaskógi og meðfram göngustígnum sem liggur að Hrafnagilshverfi. Umhverfið í kringum brautirnar er fjölbreytt, sléttur á láglendi, hólar og hæðir í fjöllum og skóglendi.

Smelltu hér til að skoða skíðasvæði.

Til þess að stunda þessa íþrótt þarf heldur ekki mikinn útbúnað, fyrir utan sjálf skíðin, skóna og stafina. Fatnaðurinn þarf ekki endilega að vera sérstaklega hannaður fyrir gönguskíði, því þægilegur útivistarfatnaður getur komið sér mjög vel. Hjálmar eru ekki nauðsynlegir en það getur þó verið gott að vera með gleraugu með lituðu gleri, sérstaklega þegar skyggnið er ekki það besta.

Að lokum má nefna að fjölmörg gönguskíðanámskeið eru í boði víðsvegar um Norðurland og þá er jafnan gisting innifalin hjá hótelum og gistiheimilum.

Upplifðu vetrarævintýri á Norðurlandi – á gönguskíðum.