Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vetrarævintýri á Norðurlandi

Á veturna breytist landið úr grænum og gróðursælum svæðum yfir í snæviþakin svæði og frosna fossa. Að upplifa Norðurland í vetrarbúningnum er mikið ævintýri fyrir alla fjölskylduna

Norðurland er land vetrarævintýra þar sem fjölmargir möguleikar til útivistar eru í boði. Á veturna breytist landið úr grænum og gróðursælum svæðum yfir í snæviþakin svæði og frosna fossa. Að upplifa Norðurland í vetrarbúningnum er mikið ævintýri fyrir alla fjölskylduna. Það er mikið fjör að prófa að fara á snjósleða, mjög vinsælt er að renna sér á gönguskíðum og svo er hér að finna margar af bestu skíðabrekkum landsins. Íslenski hesturinn nýtur sín einnig vel í snjónum og öll fjölskyldan getur skemmt sér saman í útreiðartúr. Það er augljóslega af nægu að taka og alltaf er gott að enda daginn á því að slaka á í heitri laug og vonast eftir að sjá norðurljósin dansa á himninum fyrir ofan. 

Norðurland býður uppá fjölbreytta gistiaðstöðu, veitingastaði, áhugaverð söfn sem og blómstrandi leikhúslíf. 

  • Skíði - Á Norðurlandi eru fjölmörg skíðasvæði, með fjölbreyttu landslagi og brekkum sem hæfa öllum hópum. Boðið er upp á skíði til leigu, börn geta farið í sérstaka skíðaskóla og fullorðnir geta sömuleiðis fengið kennslu fyrir öll getustig. Fjallaskíðamennska hefur notið sívaxandi vinsælda og Tröllaskaginn býður upp á ótrúlega fjölbreytt svæði fyrir þetta sport. Hvort sem farið er upp fjallið á skíðunum, með troðara, snjósleðum eða þyrlum þá ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

  • Gönguskíði: Nýjasta áhugamál okkar Íslendinga í vetur er án efa gönguskíði. Á Norðurlandi eru fjölmörg svæði þar sem hægt er að líða um á skíðunum og njóta umhverfisins í leiðinni. Skíðasvæðin eru kjörinn staður en ekki er síðra að fara í gegnum t.d. Kjarnaskóg og Mývatnssveit þar sem náttúran er sveipuð ævintýralegum vetrarblæ. Mjög víða er hægt að fara á sérstök námskeið þar sem undirstöðuatriðin eru kynnt og fólk lærir bestu aðferðirnar.

 

  • Norðurljós: Á köldum og björtum vetrarkvöldum er hægt að láta sig dreyma um norðurljósin. Þau eru sannkallað náttúruundur og það eru vandfundnar betri aðstæður til þess að njóta þeirra en á Norðurlandi.

  • Hundasleðaferðir: Að ferðast um á hundasleða er ævintýraleg upplifun sem að öllum líkindum gleymist seint.

  • Snjóþrúgur: Ekki láta snjóinn stoppa þig. Það er magnað að geta skellt á sig snjóþrúgum og með því móti gengið hraðar og komist á staði sem annars þættu ómögulegir að vetrarlagi.

  • Snjósleðaferðir: Landslagið breytist mikið á veturna og á snjósleðum má komast á staði sem erfiðara er að komast á að sumarlagi, eða fótgangandi að vetri.

  • Hestaferðir: Hestaferðir eru í boði allt árið og hvergi er betra úrval af heillandi reiðleiðum en á Norðurlandi. Að fara á hestbak er frábær afþreying og þú upplifir náttúruna og menninguna mjög sterkt. Ótal ferðir, bæði styttri og lengri, eru í boði fyrir vana og óvana. Enginn ætti að ferðast um Ísland án þess að njóta gæða íslenska hestsins í hans náttúrulega umhverfi.

  • Jeppaferðir: Nýttu þér tækifærið og ferðastu um landið með reyndum leiðsögumönnum. Farðu á svæði sem þú myndir ekki endilega treysta þér til að keyra um sjálf/sjálfur.

  • Sundlaugar og böð: Í öllum þéttbýliskjörnum eru hinar klassísku íslensku sundlaugar. Þær eru fjölbreyttar eins og þær eru margar og gaman að prófa sem flestar laugar.
    Á Norðurlandi er einnig að finna glæsileg náttúruböð þar sem hægt er að láta þreytuna líða úr sér eftir kaldan vetrardag.

  • Söfn og sýningar: Norðurland er þekkt fyrir merkilega sögu og ferðaþjónustan þar er menningartengd. Möguleikar á að skoða fornar slóðir merkra Íslendinga eru margir og anda þeirra má finna svífa yfir viðkomandi stöðum. 
    Á Norðurlandi eru fjölmörg söfn og fræðasetur sem mörg hver hafa vakið verðskuldaða athygli bæði innanlands og erlendis. Sjón er sögu ríkari.