Veitingar beint frá býli skapa sérstöðu
Á bænum Vogum I í Mývatnssveit er rekin fjölbreytt ferðaþjónustustarfsemi, auk hefðbundins búskapar. Veitingahúsið Vogafjós er vinsæll viðkomustaður innlendra sem erlendra ferðamanna, en í tengslum við veitingastaðinn er einnig rekin sveitaverslun sem selur gjafavöru, minjagripi og handverksvörur. Einnig er rekið gistihús á bænum. Sérstaða Vogafjóss, sem veitingastaðar, felst í nánum tengslum starfseminnar við búskapinn á bænum, en gestum gefst tækifæri til að kíkja í fjósið, klappa kálfum og jafnvel fá að smakka ferska mjólk úr spena.